Leita í fréttum mbl.is

'Ur öskunni í eldinn?

Hilsen:

Langt norður í Ballarhafi, næst norðurpólnum liggur eyja með nafngift sem heillað hefur margan landkönnuðinn, í gegnum aldirnar, en seinustu árin heillað margan vegalausan útlendinginn til að setjast að og kynnast bæði land og fljóð og um leið sannreyna sögur þær sem ganga um kvenkosti eyjarinnar. En burtséð frá þessum ekkifréttum, þá búa þar innfæddir sem vanir eru harðræði og kalla ekki allt ömmu sína í flestum efnum. Eyjarskeggir þessir hafa ætíð verið sjálfstæðir í gegnum aldirnar, en síðustu áratugina hefur hallað verulega undan fæti þar sem eyjarskeggjar eru nánast fjötraðir á  klafa skuldasúpu, yfirdráttar, óhóflegs vinnuálags, og um leið takmörkuð samskipti við sína nánustu. Réttlæti þess að vera á þessum klafa er sá að vera maður með mönnum, standast kröfur samfélagsins um að vera í takt við tíðarandann, helst að vera með skuldahalann svo langan að hann kæmist ekki fyrir á síðum Guinness heimsmetabókarinnar. Svo er eyjarskeggjum einnig innrætt strax frá fæðingu að vera standa á eigin fótum, jafnvel í sandkassanum á dagheimilinu að marka strax sinn haug þar. Allt þetta er hluti af sjálfsmynd þess að vera engum háður, fara sínum fram, ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur og ekki skeyta nokkru um þó að menn valti yfir mann og annan, í efnishyggjubrölti sínu. Til þess eins að kallast maður með mönnum og sanna fyrir hinum hreysti og karlmennsku sína.

En það er dýru verði keypt að lifa í slíku samfélagi og sem fyrr segir keyra eyjarskeggjar sig áfram á botnlausri vinnu, studdir af bönkum og fjármálastofnunum sem blása fagurgala í eyra eyjarskeggja á meðan vel gengur, en þegar verulega fer að halla undan fæti,  þá er öllu kippt snarlega undan eyjarskeggjanum og honum kastað út í ystu myrkur, þar sem hann stendur ekki lengur undir skuldabyrðinni, afborgunum, kröfunum um að tolla í tískunni, og þar frameftir götunum.

Vissulega hefur það mótandi áhrif á eyjarskeggjann að heyja lífróður hvern dag með vinnuframlagi sínu, til þess eins að komast af, og leggja jafnvel dag og nótt til að framfleyta sjálfum sér og öðrum. En oftast nær staldra menn við, leggja frá verkfærið og hugsa sem svo, er þetta þess virði, að slíta sér nánast út, dag frá degi, tapa kannski af mikilvægum atburðum í lífi fjölskyldunnar, vegna þess að maður er alltaf í vinnunni, bara til þess eins að komast af á lágmarkstöxtum, svo maður geti verslað í Bónus, Toys R' Us, og geta komist klakklaust í gegnum Kringluna með rjúkandi kortið áður en maður þarf að semja við þjónustufulltrúann sinn um hækkun heimildarinnar, svo maður geti stundað sömu iðju að mánuði liðnum.

En þessi lífróður slítur manni hægt og sígandi og að lokum er maður orðinn svo samdauna þessu lífi að annar möguleiki virðist ekki vera í stöðunni. Jú kannski getur maður menntað sig, en þá eru námslánin ekki mikið til að hrópa yfir. En eyjarskeggjanum er ekkert ómögulegt og hann lætur sig hafa það að slíta sér út í vinnu fram til kvölds,  og inn á milli með aukavinnu, til að brúa tekjuleysisð þegar maður situr í kvöldskólanum, til að hlaupa í kvöldskólann til að mennta sig svo hann geti hækkað úr lágmarkstaxta í efri taxtamörk, svona með tíð og tíma. Því allt hefur upphaf og endi.

Eflaust eru menn farnir að gruna um hvaða eyju er að ræða, og kollgátur manna eru réttar, jú þetta er óskalandið 'Island, í hugum margra útlendinga þar sem frjálsræði ríkir, engar styrjaldir og blóðsúthellingar, aðeins villt og fjörugt næturlíf og ef það heillar ekki, þá er náttúran villtari en nokkuð annað með sinni óendanlegu fjölbreytileika.

En fyrir eyjarskeggjann þá er þetta fangelsisvist, þar sem menn lifa í hringrás, skulda, yfirdráttar, efnishyggju, og kröfunni um að vera maður með mönnum. Og til að bæta gráu ofan á svart heyja menn baráttu við langar og dimmar vetrarnætur, þar sem veðurfarið er jafn mislynt og manískt þunglyndi, ógleði og gleði. Og þegar loks tekur að birta í sálinni og í hversdagsleikanum, þá heyja menn enn eina baráttuna, en sú barátta að koamst í burtu í sól og sumaryl, fjarri kulda, fjarri áhyggjum, fjarri samfélaginu, til þess eins að hvíla sig, eftir harðræðið. Svona er líf eyjarskeggjans, ár eftir ár, byggt á hringrás atburða og verknaðar, til þess eins að lifa af sem eyjarskeggi á harðbýlustu eyju Ballarhafs.

Við sem höfum reynt þennan darraðardans horfum á þennan hringdans með undrun og skiljum ekki hvernig við fórum að þessu, á meðan dansinn dunaði, að hafa ekki tapað viti eða heilsu við að stunda þennan villta efnishyggjuhringdans.  Við kveðjum landið með þotugný, kveðjum rok og vinda,kaldar vetrarnætur, kveðjum þessa ómennsku sem ræður ríkjum, þar sem menn eru háðir geðþóttavilja samráðs marga fyrirtækja sem ráða öllu á 'Islandi í dag. Við erum aðeins klukkuverk í lífsverki þessarra manna sem skammta okkur úr hnefa á meðan þeir sjálfir spara ekki við sig. Við dáumst að auðlegð þeirra og efnishyggju og vildum að við gætum sjálf baðað okkur í eigin auðlegð, en til þess að njóta sömu lífskjara og þeir sem halda utan um ólarnar, þarf miklu meira til en 2X24, þar sem allt okkar vinnuframlag er etið upp af skattaálögum. 

Þannig að manni er spurn eftir 12 daga veru á landinu, er þetta ekki bara úr öskunni í eldinn að búa  við þessar ómennsku aðstæður á 'Islandi í dag? Miðað við nýjustu spár þá hækkar matvælaverð um 13%, bensínlítrinn stóð í 139 þegar ég kvaddi landið og framundan er mikið fall á íslensku krónunni. Og til að bæta gráu ofan á svart, þá er von á náttúruhamförum hvenær sem er. Veðurfar fer versnandi með rigningarlægðum og vindlægðum samhliða því sem sumartíminn verður styttri og styttri vegna hlýnun jarðar.

Þið megið kalla mig raggeit, en eftir að hafa verið þarna í 12 daga, þá er Ísland úr fjarlægð séð ekki álitlegur kostur í dag miðað við þróun mála.

Hana nú

Hilsen

Gilli 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Egill Egilsson
Egill Egilsson
Gamall ritjálkur sem hefur unun af því að rýna í mannlíf og umhverfi.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband