Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Farvel Max

Farvel Max

Heil og sæl:

Fyrr í kvöld settist ég niður og skrifaði þvílíkan bálk um fréttir í dönskum blöðum,um Saddam Hussein, skotárás á Nörrebro, og ég veit ekki hvað. Hvað haldið þið að gerist svo, ég hef greinilega ýtt á rangan hnapp, því greinin hvarf með öllu. 'Eg var að spá í að endurskrifa hana, er orðinn vanur því eftir samskiptin við Raj altmuligmand, en svo ákvað ég að sleppa því, enda nóg að læra framundan. Fyrir þá sem þekkja til, þá erum við að lesa um Java script, síðan er þemavika í gangi í grafísku hönuninni, og eflaust eitthvað meira til í viðskiptafræðinni. Þannig að það er alveg fj..............nóg að gera. Lagðist til hvílu, en gat ekki sofnað. Auðvitað af tryggð við lesendur mína sem virðast auka við á degi hverjum, enda er mér farið að líða eins og landsbyggðarblaði, sem allir lesa.

En enn á ný velta menn fyrir sér þessum kostulegu fyrrisögnum mínum, og í þetta skiptið er um enn eina slíka að ræða. Umrædur Max er minn ástkæri drykkur, Pepsi Max sem ég hef ákveðið að segja skilið við, enda kominn tími á pásu, hvað varðar gosdrykki. Maður er nú búinn að styðja kók frá því í árdaga og ætti eiginlega að fá eina gullhúðaða kókflösku frá þeim fyrir alla tryggðina, sem nær langt aftur til vöggutímabilsins, þegar amma gaf mér kók í pelann. Hvar er þakklætið, Vífilfell, fyrir kókhef ég fórnað tönnum og holdafari, bara til að njóta bragðsins. Þangað til ég fékk nóg og skipti yfir í hið sæta og ljúfa Pepsi Max, sem nú verður að víkja fyrir alvarlegum drykkjum, eins og vatni, safa og Slottaranum. En það er ekki með öllu svo slæmt, því ég hef ákveðið að hafa "slik" dag á laugardögum þar sem ég fæ mér eina svalandi Pepsi Max og treina hana yfir daginn.

Þannig að, ég kveð nú Pepsi Max með öllu, hætti reyndar að drekka það fyrir viku síðan, og er bara nokkuð brattur.  Féll reyndar um daginn, vegna smá stress í náminu, en er kominn á stað aftur með að drekka ekki. Baráttan er hafin.

Hilsen

Gilli.


Sehr gut

Mess with me

Sælir mínir dyggu lesendur:

Jæja, maður er nýkominn heim eftir þriggja tíma törn við leik í kvikmynd sem verður frumsýnd i janúar á næsta ári. Um er að ræða kvikmynd, sem er svokölluð interactive, þar sem áhorfendur geta valið með hvað hætti þeir drepa ákveðinn aðila í myndinni. Þeir sem standa að myndinni eru flestir þýskir nemendur í svokallaðri medialogy, sem er í rauninni alhliða nám í kvikmyndagerð, hljóðupttöku, handritsgerð og fleira. Mitt hlutverk í myndinni, þegar klippt verður saman er um aðila sem er að ná í tösku fulla af einhverju vafasömu efni, og á leiðinni á fundarstað mætir hann einni af riturum mafíuforingjans og er þegar murkaður  út fyrir að líta sem snöggvast á hana. Þannig hljómaði  handritið, og það þurfti til 3 tíma að taka þetta. Kvenhlutverkið var í höndum stúlku frá Lettlandi, sem því miður var búin að fá sér einum of marga bjóra, fyrir hlutverkið, og mætti þar að auki á háhæluðum stígvélum og var frekar völt í hlutverkinu. Enda skemmtum við okkur kvikindislega vel þegar við heyrðum hana segja oft og ítrekað, "again", enda vildi hún ekkeert frekar en að fara heim og fá sér bjór. En þetta hafðist þrátt fyrir það og allir sáttir, enda vilja menn að sjálfsögðu fara heim og fá sér einn kaldan.

Eins og fyrr segir var fyrsti í Tuborg í gær, og í texta mínum slæddist inn pínleg villa þess efnis að momsskatturinn væri dýrari í Þýskalandi, en það er öfugt, hann er ódýrari þar en í Danmörku. Ef mig minnir rétt þá er momsskatturinn eins og virðisaukinn heima.

Verð að minnast á frekar spaugilegt atriði. 'I vikunni sem leið atti fótboltaliðið FCK Kaupmannahöfn leik við Manchester United, og fram að leiknum voru spilaðar skemmtilegar sjónvarpsauglýsingar þar sem stuðningsmenn Manchester, gerðu lítið úr  danska fótboltaliðinu, sigurvissir fyrir sitt lið og fannst lítið til koma. Viti menn, FCK Kaupmannahöfn lagði Manchester United með einu marki, og núna eru þessar sjónvarpsauglýsingar spilaðar, með texta í lokin þess efnis að kannski ættu stuðningsmenn manchester united að éta orð sín aftur.  Nú eiga danir leik við Bolton að mig minnir eða eitthvað slíkt lið og danir eru sigurvissir fyrir þennan leik.

Hilsen.

Gilli


Fyrsti í JólaTuborg

Sæl verið þið og gleðilegan Tuborg.

Nei, ég er ekki kominn á stútinn hjá Tuborg, einn af þeim sárafáu eflaust hér, fyrir utan einn samnemanda minn, sem mætti með jólasveinahúfu í tíma í morgun. Mér varð litið á dagsetninguna og það er enn nóvemberbyrjun. Og hverju sætti, að hann mætti með jólasveinahúfu, kannski vegna þess að hann væri orðinn óþreyjufullur eftir jólunum? 'Onei orsökin var önnur, reyndar tengd anda og venjum jólahefða hér. Það er nefnilega kominn fyrsti í JólaTuborg, sem þýðir að á þessum degi dreifir Tuborg bjórverksmiðjan sínum klassíska jólamiði, Tuborg um allar grundir, jafnvel fríum, á veitingstöðum í kvöld. Málið er að vera mættur eina mínútu í níu í kvöld, og þá munu ævintýrin gerast á jólakveldi Tuborgs víða um Danmörku. Þannig er Danmörk í dag, senn að taka á sig jólamynd, enda komnar jólaljósaséríur i Torfagötu, sem er aðal gatan hér í Esbjerg. Þó hef ég ekki orðið var við neinar flenniauglýsingar um jólin hér í sjónvarpinu eða blöðunum, miðað við heima þar sem kaupmannajólin byrja í október, fyrst með jólahlaðborðsauglýsingum og svo fylgir Ikea fast þar á eftir. Að vísu hafa verið auglýsingar um jólahlaðborð í staðarblaðinu hér, en það er það eina sem stendur upp úr. Að öðruleyti er farið að verða kuldalegt, samt enginn snjórinn, bara nettur kuldaboli.

Af öðrum ómerkari málefnum er það að frétta að hagstæðast er fyrir Danann að bregða sér yfir landamærin til granna sinna, tyskverja, og versla þar hagstætt, bjór, dvd, eðalvín, föt og margt fleira sem er þjakað af svokölluðum momsskatti sem lagður er á hér og er hærri en skatturinn í Danmörku. Má sem taka dæmi, að fyrir 89 dkr getur keypt 4x24 bjórdósir af 33cl. Það þykir gott, enda bjórinn dýrari hérna megin að mati dana.

Nú í fréttum er það helst að nú eru danir óhressir með sinn mann, Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, því líkt og við íslendingar, lýstu danir sig viljuga til stríðsreksturs í 'Irak, en eftir þær hörmungar sem dunið hafa yfir þar, og þeir fimm látnu danir sem hafa verið fluttir heim frá'Irak, eru farnir að vekja upp spurningar um áframhaldandi veru dana í stríðsrekstrinum. Líkt og Blair, er Anders Fogh lýst sem strengjabrúðu í hinni illu stjórn Bush, sem tekur við skipunum frá honum. Það er meirihluti í dönsku þjóðarsálinni fyrir að kveðja herinn heim, enda spyrja menn sig hver tilgangurinn sé með veru dana þarna.

'Ur öðrum afkimum dansks þjóðlífs er það að frétta, að hin mikla MTV hátíð sem haldin var hér þykir hið mesta flopp, óspennandi og lítt áhugaverð þetta árið miðað við tilstand og fleira. Mikið grín hefur verið gert að menningarmálaráðherranum danska, sem fékk sér skreytinu í eyrað að sið rappara, og fram að MTV-hátíðinni var að æfa  ákveðnar handarhreyfingar að sið rappara, og  telja danskir gárungar þetta til þess gert að geta talist svalur í "globaliseringu" tónlistarlífsins, en aðallega til að geta slegið um sig innan um Snoop Dog og hina rapparana.

Jæja, þá er best að líta niður í kjallara, þar hafa framtaksamir "globalsinnar" dani og hollendingur hreinsað til og opnað barinn með ódyrum miði frá Þýskalandi, á aðeins 5 dkr. Ég á 20 dkr þannig að ég slæ til.

Hilsen.

Gilli


Andvaka-með 4.9

Esbjerg, klukkan 2:10 að nóttu.

Sæl verið þið. Hvað haldið þið, hér liggur maður andvaka og það eina sem hringsnýst i kollinum á mér er lagið Fallinn með 4.9, eða var það 4.5? Who gives a sh................ Oftast nær er það þannig að um leið og ég er lagstur á koddann þá sofna ég strax, en ónei eftir að ég kom heim úr skólanum í kvöld þá er ég svo sannarlega búinn að hafa fyrir því að reyna að sofna, og með þennan eílifðarsöng í heilabúinu. Ekki það að ég sé að fara í eitthvert próf, fjarri því, en stundum kemur það fyrir að lög eða atburðir vilja festast í kollinum, eiginlega skjóta rótum þar um tíma, eða þangað til maður hefur fundið eitthvað annað "viðloðandi", en á meðan er þá er maður með þennan dynjanda í kollinum. Og til að bæta gráu ofarn á svart, eftir að ég slökkti ljósin þá er ég allt í einu kominn með einhverja fóbíu fyrir hljóðum. Sérkennilegum brakhljóðum. Þetta er tilkomið eftir að  skriðdýr eitt, sem hægt er að murka með inniskónum í einu höggi tók sig til og rölti í átt að rúminu mínu, eiginlega bægslaðist áfram. 'I fyrstu hélt ég að þetta væri járnsmiður, en þegar ég sá bægslaganginn á kvikindinu, þá komst ég að þeirri staðreynd um leið og ég reiddi skóinn á loft að þetta væri afkomandi þess frá Bandarríkjunum, miðað við búkstærð og bumbuganginn, þannig að ég ákvað að lina þjáningar þess með einu góðu höggi. Enda má segja að þetta hafi verið besta megrunaraðferðin fyrir greyið.

Mér er ekkert sérlega vel gefið um ýmis skordýr, og má þar nefna þá helst til sögunnar köngulær. 'Eg fæ netta gæsahúð þegar ég sé þessi litlu skriðkvikindi heima, en mér varð hressilega brugðið fyrsta mánuðinn minn hérna þegar ég ætlaði að loka herbergishurðinni minni eitt kvöldið. Mér varð allt í einu starsýnt á  þetta stærðarinnar kvikindi af könguló, sem var stærra en eldspýtustokkur og sverari en fingurbjörg. Þar sem köngulóin var varla nema í augnhæð fyrir ofan mig þá þorði ég mig varla að hreyfa hvorki legg né lið, og varð það eiginlega til happs, að Sahan, einn af félögum mínum hérna á kollegium, tók eftir því hversu stjarfur ég var, og brást skjótt við, sagði mér að drepa kvikindið með inniskónum, en þar sem ég var eiginlega smátt og smátt að umbreytast í vaxmyndastyttu, þá tók hann sinn eigin skó og smassaði kvikindið með einu góðu höggi. Um leið og kvikindið hafði verið afmáð af dyrakarminum þá gerðist hið undarlega,  þessi könguló umbreyttist í litla klessu og það sem hafði virkað stórt og ógnvænlegt var eins og hárstrý á gólfinu.

Þrátt fyrir að kuldaboli sé farinn að gera vart við sig hér í Danmörku, læðast enn litil kvikindi af og til um gólfin hér, enda er gróður nánast áfastur við gluggana hér og tré og annar gróður nálægur.

Þegar maður liggur svona andvaka, þá kemur oft fyrir að maður fer yfir ýmislegt í huganum sem manni tekst ekki að beina sjónum að hversdagslega. Því eftir stutta yfirlegu ákvað ég að beina sjónaukanum frá naflanum á sjálfum mér og gefa þér lesanda góðum frí frá þessum raunum að lesa um hið lítilfjörlega líf mitt hérna á kollegiium og í stað þess ætla ég að beina sjónaukanum aðeins að mínu nánasta umhverfi, þe. svona smá innsýn í mitt umhverfi.  Hvernig það verður framreitt kemur í ljós á næstu vikum. Fylgist því með.

Jæja, syfjan er komin á nýjan leik, best að skella sér undir sæng og gera sig kláran fyrir morgundaginn.

Hilsen

Gilli


« Fyrri síða

Höfundur

Egill Egilsson
Egill Egilsson
Gamall ritjálkur sem hefur unun af því að rýna í mannlíf og umhverfi.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband